Gistiaðstaða
6x2 herbergi með handlaug og sameiginlegu baðherbergi og 1x2 herbergi með sérbaði í tveggja hæða gistihúsi með eldhúsi, mat- og setustofu og þvottahúsi. Tveggja manna gisting í tveimur smáhýsum (16m2) með sérbaði og eldunaraðstöðu. Gestir hafa aðgang að heitum potti í sérstöku baðhúsi. Ókeypis þráðlaust netsamband.
Matur, veitingar
Eldunaraðstaða í gistihúsi og smáhýsum. Grillaðstaða á stórri verönd við gistihúsið. Máltíðir í boði ef pantað er fyrirfram.
Þjónusta, afþreying
Veiðileyfi seld í Skjálftavatni. Fjölskrúðugt fuglalíf við vatnið. Næsta verslun við Ásbyrgi (8 km) og á Húsavík (47 km). Kaffihús í Gljúfrastofu, þjónustumiðstöð þjóðgarðsins (8km), og veitingasala í Skúlagarði (2 km). 9 holu golfvöllur hjá Ásbyrgi (8km). Næsta sundlaug, Lundur (13 km). Hvalaskoðunarferðir frá Húsavík (47 km). Gæsa- og rjúpnaveiði á veiðitímabilum.
Þar sem landið og hafið mætast
Keldunes er skammt frá Skjálftavatni á sléttlendinu upp af botni Öxarfjarðar þar sem skiptast á svartir sandar, grænar flatir, árkvíslar og vötn. Fögur útsýn yfir vatnið, til hafs og til heiða og fjalla sem má njóta á veröndinni við gistihúsið eða á gönguferðum um nágrennið.
Vatnajökulsþjóðgarður – Norðursvæði:
Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur, Dettifoss
Gestastofa og upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins á norðursvæði er í Ásbyrgi (8 km). Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur með Hafragilsfossi, Dettifossi og Selfossi eru eitthvert stórkostlegasta náttúrufyrirbæri á Íslandi. Um svæðið liggja fjölmargar merktar gönguleiðir, miserfiðar, allt frá 30 mín. skemmtigöngu upp í 2ja daga ferðir. Malarvegur, akfær öllum bílum, liggur frá Kelduhverfi upp með Jökulsárgljúfrum innan þjóðgarðsins vestan megin suður á þjóðveg 1. Einnig er hægt að aka upp með Jökulsá austan megin og skoða Dettifoss af austurbakka gljúfursins. Daglegar áætlunarferðir yfir sumarið frá Ásbyrgi í Vesturdal, einn þekktasta staðinn í gljúfrunum, og að Dettifossi vestan megin.
Hvalaskoðun, hestaleiga, Núpasveit
Á Húsavík (47 km) gefst tækifæri til að upplifa ógleymanlegt stefnumót við stórhveli í hvalaskoðunarferð um flóann Skjálfanda. Í bænum er einnig áhugavert safn um hvali og lifnaðarhætti þeirra. Rétt sunnan við Húsavík er hestaleiga í Saltvík. Frá Keldunesi er einnig áhugavert að bregða sér í skoðunarferð um Núpasveit, austan megin Öxarfjarðar, til þorpsins Kópaskers.
Gestgjafi: Bára Siguróladóttir