Gistiheimilið RjúpaGistiheimilið Rjúpa

Hlýlegt fjölskyldurekið gistiheimili við bæinn Hróarsstaði í Fnjóskadal á Norðausturlandi, 13 km frá Akureyri, höfuðstað Norðurlands. Gistiheimilið, þar sem eru herbergi fyrir allt að 11 manns, stendur á lágri hæð í vestanverðum dalnum gegnt stærsta birkiskógi á Íslandi, Vaglaskógi. Fjölbreyttir afþreyingar- og útivistarmöguleikar fyrir alla fjölskylduna í nágrenni við bæinn og stutt að fara til að sjá einstakar náttúruperlur Norðurlands og njóta alls þess sem er í boði á Akureyri og Húsavík. Opið: 1. júní - 31. ágúst.

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

 • Sameiginlegt baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Hefðbundinn búskapur
 • Wi-Fi
 • Eldunaraðstaða
 • Sjónvarp inni á herbergjum
 • Golfvöllur í nágrenni
 • Hleðslustöð
 • Þvottaaðstaða/þjónusta
 • Merktar gönguleiðir
 • Norðurljósaþjónusta

Í nágrenni

 • Akureyri 13 km
 • Hlíðarfjall 19 km
 • Goðafoss 20 km
 • Laufás 20 km
 • Mývatn 63 km
 • Húsavík 64 km

Gistiaðstaða

1x1 manns herbergi, 3x2 manna herbergi og 1x4 manna herbergi (fjölskylduherbergi) í sérhúsi við bæinn. Í herbergjunum er handlaug, stóll, fataskápur, náttborð og uppbúin rúm með handklæðum. Fullbúið sameiginlegt baðherbergi með sturtu og annað minna sameiginlegt salerni með handlaug. Á gistiheimilinu er fullbúið eldhús með sjónvarpi og borðkrók. Gestir hafa aðgang að þvottavél og þurrkara. Utanhúss eru garðhúsgögn og þvottasnúra.

 
Veitingar og þjónusta

Morgunverður er innifalinn í verði. Lögð er áhersla á íslenskan mat og heimatilbúinn. Næsta verslun með öllum helstu nauðsynjum er á Illugastöðum, 10 km framar í Fnjóskadal en næstu stórmarkaðsverslanir með matvöru og öðrum nauðsynjum eru á Akureyri (13 km) þar sem auk þess er að finna gott úrval matsölu- og veitingastaða.

Hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla með tengi við týpu 1 er á bænum (Ameríku-týpa).

 
Afþreying

Gestum er velkomið að líta inn í fjárhúsin á bænum en kindurnar eru upp til fjalla á sumrin. Ofan við gistiheimilið og í Vaglaskógi er að finna ýmsa bragðgóða sveppi, bláber, krækiber og hrútaber. Í dalnum er sundlaug á Illugastöðum (10 km), 9 holu golfvöllur við Lund (3 km) og húsdýragarðurinn Daladýrð (5 km). 

 
Hróarstaðir, Fnjóskadalur, Vaglaskógur

Gistiheimilið Rjúpa stendur við bæinn Hróarsstaði í Fnjóskadal. Á bænum er stunduð skógrækt og búið með sauðfé. Rjúpan er einkennisfugl gistiheimilisins en hún verpir í skjóli fjalldrapa og birkis í kringum bæinn. Fnjóskadalur er rómaður fyrir náttúrufegurð, kyrrð og veðursæld. Vaglaskógur, sem er gegnt Hróarsstöðum, austan við Fnjóská, er stærsti birkiskógur landsins, unaðsreitur til útivistar og slökunar fyrir fólk á öllum aldri. Þar eru merktar gönguleiðir, hlýlegir lundir og m.a. skemmtilegt trjásafn með fjölda tegunda.

 
Eyjafjörður, Akureyri, Siglufjörður, Hrísey, Laufás

Gistiheimilið Rjúpa er tilvalinn dvalarstaður þeirra sem vilja kynnast náttúru, menningu og mannlífi um miðbik Norðurlands. Sjálfsagt er að bregða sér yfir til Eyjafjarðar og verja þar a.m.k. einum góðum degi til skoðunarferða. Styst er að aka um hin nýju Vaðalheiðargöng til Eyjafjarðar og Akureyrar (gjaldskylda). Hringferð um Eyjafjarðarsveit er indæl upplifun á fallegum degi en ekki er síðra að aka út með firðinum að vestan til Dalvíkur. Þá er tilvalið, ef tími er nægur, að bregða sér yfir til Hríseyjar með ferjunni. Í góðu veðri má svo aka út Fnjóskadal og fara yfir Víkurskarð norður í Laufás þar sem er byggðasafn í einum stærsta torfbæ á Íslandi (20 km). 

 
Goðafoss, Mývatn, hvalaskoðunarferðir, heit sjóböð

Sé haldið í austur frá Hróarsstöðum liggur leiðin fyrst að Goðafossi í Skjálfandafljóti (20 km) einum kunnasta og fegursta fossi á Íslandi. Þar er handverksverslun og veitingastaður. Frá Goðafossi eru svo rúmir 40 km til Mývatns þar sem er einstakur heimur, víðkunnur fyrir náttúrufegurð og landslag sem á sér engan líka (gervigígar við Skútustaði, Dimmuborgir, Hverfjall, Námaskarð, Jarðböðin við Mývatn). Til Húsavíkur eru 64 km frá Hróarsstöðum. Þar má bregða sér í hvalaskoðunarsiglingu og slaka síðan á í heitum sjóböðum hjá GeoSea. 

Gestgjafar:  Agnes Þórunn og Kristján

 

í nágrenni