Gistiaðstaða
Sumarhúsið, sem stendur hjá skógræktarlundi á bænum, er 37 m2 að stærð með tveimur tveggja manna svefnherbergjum; í öðru er tvíbreitt rúm og í hinu er koja. Auk þess er svefnsófi í stofu og dýnur á svefnlofti. Eldunaraðstaða (eldavél, örbylgjuofn, ísskápur) og borð/setustofa með sjónvarpi. Stór verönd með gasgrilli. Hægt er að fá aðgang að þvottavél.
Máltíðir/veitingar
Gestir sjá um allar máltíðir sjálfir. Næsta matvöruverslun og matsölustaðir eru á Dalvík (15 km).
Þjónusta/afþreying
Stangveiði frá ströndinni án endurgjalds. Berjatínsla í hlíðunum ofan við bústaðinn. Fjölmargir möguleikar til gönguferða í nágrenninu, um fjallendið ofan við sveitina og í Svarfaðardal. Góð skíðalönd. Hestaferðir frá Kálfsskinni (2 km) og Hringsholti (15 km). Hvalaskoðunarferðir á sumrin frá Dalvík (15 km) og Hauganesi (6 km). Áætlunarsiglingar til Hríseyjar frá Árskógssandi (7 km). Byggðasafn á Dalvík (15 km). Síldarminjasafn og Þjóðlagasetur á Siglufirði (49 km). Sundlaugar: Dalvík (15 km) og Þelamörk (19 km). Golfvellir hjá Dalvík og á Akureyri. Næsta þéttbýli með verslunum, matsölustöðum og almennri þjónustu: Dalvík(15 km). Til Akureyrar, höfuðstaðar Norðurlands, eru 28 km frá Syðri-Haga.
Eyjafjörður – Akureyri
Eyjafjörður, um 60 km langur nálægt miðju landinu, og sveitirnar, sem að honum liggja, meðfram ströndinni eða inni í skjólsælum dölum í faðmi tignarlegra fjalla, eru að margra dómi með fegurstu slóðum á landinu. Við botn fjarðarins stendur Akureyri, höfuðstaður Norðurlands, blómlegur sjávarútvegs-, iðnaðar-, menningar- og háskólabær. Syðri-Hagi er á vesturströnd fjarðarins, í um 25 mín. akstur frá Akureyri, og stuttan spöl frá einum svipmesta og hlýlegasta dal á norðanverðu landinu, Svarfaðardal.
Gönguleiðir í grennd við Syðri-Haga
Göngufólki bjóðast fjölmörg tækifæri til að njóta útivistar í einstæðu umhverfi í grennd við Syðri-Haga og í Svarfaðardal. Fjallamenn taka stefnuna upp á fjallið fyrir ofan bæinn, Kötlufjall, en þeir sem vilja áreynsluminni göngu leggja leið sína inn í Þorvaldsdal sem gengur inn í fjöllin upp af Árskógsströnd norðan við Kötlufjall. Í dalnum var áður búið á nokkrum bæjum. Nú er þar allt í eyði og gott að hvílast frá erli nútímans á göngu um grónar götur með tignarleg fjöllin allt um kring.
Svarfaðardalur
Frá Syðri-Haga er tilvalið að skreppa í skoðunarferðir á bíl um næstu sveitir. Þar verður einkum að mæla með ferð um Svarfaðardal, grösugan og búsældarlegan dal, girtan fögrum fjöllum. Dalurinn skiptist þegar fram í hann kemur og heitir dalurinn, sem gengur til suðvesturs, Skíðadalur. Frá bænum Klængshóli, fremsta bæ í Skíðadal, eru í boði gönguferðir með leiðsögn. Göngufólki má einnig benda á stikaða leið frá bænum Koti, fremst í Svarfaðardal, upp að Skeiðsvatni (45 mín. ganga).
Gestgjafi: Gitta