Hof í VatnsdalHof í Vatnsdal

Gisting í sérhúsi á sveitabænum Hofi í Vatnsdal í Húnaþingi [Hunathing county] á norðvestur-Íslandi. Hlýleg og snyrtileg húsakynni í íslenskri sveit, á sagnaslóðum í vinalegum dal þar sem má njóta samvista við menn, skepnur og íslenska náttúru. Glitrandi laxveiðiá hjalar á eyrum í dalbotninum og skammt undan opnast heiðalönd og víðerni óbyggða með útsýni til jökla.

Opið:  25. maí - 1. september. 

Veldu dagsetningar
Frá:15.930 kr.
hver dvöl
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Sameiginlegt baðherbergi
 • Sér baðherbergi
 • Hefðbundinn búskapur
 • Wi-Fi
 • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
 • Eldunaraðstaða
 • Merktar gönguleiðir

Í nágrenni

 • Vatnsdalur - gljúfur og foss
 • Vatnsdalshólar
 • Blönduós 32 km
 • Sundlaug, veitingastaður og golf á Blönduósi

Gistiaðstaða

6 herbergi með sérbaðherbergi og 3 með sameiginlegu baðherbergi. Herbergin eru í sérbyggingu þar sem líka er borðsalur, rúmgóð setustofa og eldhús. Verönd með heitum potti og grillaðstöðu, úti og í litlu garðhúsi.

Þjónusta

Kvöldverður í boði ef pantað er fyrirfram. Gestir geta einnig eldað sér sjálfir í vel búnu eldhúsi.
Á jörðinni er stundaður sauðfjárbúskapur og góð hestarækt. Börn fá tækifæri til að skoða húsdýr, heilsa upp á hundana á bænum og klappa kisu. Gestgjafar veita upplýsingar um gönguleiðir í nágrenninu og hægt að fá leiðsögumann til fylgdar ef þess er óskað. Frítt þráðlaust netsamband.

Afþreying

Hestaferðir: Gauksmýri (48 km). Næsta þéttbýli með verslunum, matsölustöðum, sundlaug, golfvelli o.fl.: Blönduós (32 km).

Í sveitasælu á söguslóðum

Búið hefur verið á Hofi síðan um árið 900 þegar landnámsmaðurinn Ingimundur gamli setti þar niður bæ sinn. Hann var heiðinn eins og langflestir landnámsmenn og bæjarnafnið „Hof“ merkir „heiðið musteri“. Ein af Íslendingasögunum, Vatnsdæla saga, segir frá Ingimundi, niðjum hans og sveitungum í Vatnsdal og næsta nágrenni. Kirkja var á Hofi fram undir 1700 og fyrir nokkrum árum fannst þar kirkjugarður þar sem voru grafir frá því á fyrri hluta 11. aldar. Nú hefur sama ættin búið á Hofi í 120 ár.

Gönguleiðir við allra hæfi

Í grennd við Hof og á næstu slóðum framar í Vatnsdal eru fjölbreyttar gönguleiðir. Þar má sérstaklega nefna gönguleið upp með Vatnsdalsárgljúfri þar sem Vatnsdalsá fellur um 300 m, í mörgum fallegum fossum, niður af heiðarlöndum ofan sveitarinnar. Merkt gönguleið er upp með gljúfrunum frá bænum Forsæludal (13 km), í samnefndum dal, upp að fossinum Skínanda. Allvíða á þessum slóðum má ganga úr dalnum upp á hálendisbrúnina (1,5-2 klst.) til þess að njóta útsýnis yfir víðerni óbyggðanna.

Selalátur og aðrir áhugaverðir staðir

Hof er framarlega í Vatnsdal, um 16 km frá vegamótum við þjóðveg nr. 1. Þaðan eru um 28 km í vestur að vegamótum þar sem leið liggur út á Vatnsnes, hálendan skaga á milli Húnafjarðar og Miðfjarðar. Hringleið fyrir nesið (90 km) getur verið ógleymanleg upplifun á björtum degi, ekki síst vegna þess að við nesið eru einhver stærstu selalátur á Íslandi. Er sérstök aðstaða til selaskoðunar á þremur stöðum við ströndina. Safn og upplýsingamiðstöð um seli við Ísland er í þorpinu Hvammstanga (57 km frá Hofi). Af öðrum áhugaverðum stöðum í grennd við Vatnsdal má nefna Eldborg hjá Vesturhópsvatni og Kolugljúfur í Víðidal.

Gestgjafar: Jón og Eline

 

í nágrenni