Gistiaðstaða
Gisting í gamla íbúðarhúsinu á bænum; 2x2ja manna og 1x3ja manna herbergi. Sameiginlegt baðherbergi, handlaug í öllum herbergjum. Hægt að fá barnarúm. Eldhús og setustofa með sjónvarpi, bókum, spilum og leikföngum. Verönd með garðhúsgögnum og grilli fyrir framan húsið.
Á bakvið gamla húsið eru 2 gámaherbergi með sérbaði. Í herbergjunum er hægt að hita sér vatn í kaffi og te.
Inntékk: kl. 16-22. Gestir eru beðnir um að hafa samband við Andreu gestgjafa fyrirfram ef komutími er utan tilgreinds tíma.
Þjónusta
Til morgunverðar er lögð áhersla á heimatilbúnar afurðir. Aðrar máltíðir í boði ef óskað er. Hægt er að fá morgunverð fram til 10. okt, en eldunaraðstaða er í boði fyrir þá sem gista í gamla húsinu.
Gestum er velkomið að fylgjast með ábúendum að störfum. Heimafólk er reiðubúið að sýna útihús og vélar og svara spurningum um búskapinn. Nokkrir hestar eru á bænum til sýnis fyrir börn, merar með folöld á vorin. Sérstakir viðburðir eru sauðburður í maí, göngur og réttir í f.hl. september (Hamarsrétt á Vatnsnesi) og stóðréttir síðustu helgina í sept. og fyrstu helgina í okt. Kvöldgöngur með leiðsögn. Gönguferðir (dagsferðir) með leiðsögn, ef óskað er, um fjallendið í grennd við bæinn eða niður að vatni (lágm.þáttt. 3). Hægt að fá göngustafi og gönguleiðakort að láni. Silungsveiði í ám og vötnum í nágrenninu. Silungsveiði í á sem tilheyrir jörðinni; veiðileyfi seld á bænum.
Afþreying
Hestaleiga (4 km). Næsta þéttbýli með sundlaug, verslunum, banka og annarri almennri þjónustu: Hvammstangi (12 km).
Fjallaslóðir og gönguskór
Neðra-Vatnshorn stendur skammt frá þjóðvegi 1 þar sem hann liggur um Línakradal á milli Miðfjarðar og Víðidals í héraðinu Húnaþingi. Norðan dalsins er syðsti hluti fjalla á Vatnsnesi, ákjósanlegt göngusvæði fyrir sæmilega vana göngumenn. Frá bænum Grund í Vesturhópi (11 km) er merkt gönguleið yfir fjöllin til þorpsins Hvammstanga (11 km).
Vatnsnes – selaskoðun – náttúruperlur
Skammt frá bænum eru vegamót þar sem komið er inn á veg 711, hringveg (90 km) um Vatnsnes. Við Vatnsnes eru ein aðgengilegustu og stærstu selalátur á Íslandi. Hjá bæjunum Ósum, austan megin á nesinu (30 km frá Neðra-Vatnshorni), og Illugastöðum og Svalbarði, vestan megin, er góð aðstaða til selaskoðunar. Í fjörunni undan Ósum er Hvítserkur, sérstæður klettastapi og eitt vinsælasta myndefnið á norðanverðu Íslandi. Að loknum ánægjulegum kynnum af selum í náttúrulegu umhverfi sínu, má fræðast um þá og selveiðar á Íslandi í Selasetri Íslands á Hvammstanga.
Áhugaverðir staðir á næstu grösum
Borgarvirki er 177 m hár gosstapi, einstök náttúrsmíð sem ber auk þess menjar um menn hafi bætt um betur á miðöldum þegar klettaborgin var notuð sem virki og varðturn. Þaðan er mikið útsýni yfir héraðið. Í Víðidal eru Kolugljúfur, 1 km löng og um 20-25 m djúp þar sem Víðidalsá fellur í glæsilegum fossum. Brú er yfir ána hjá gljúfrunum. Í Vatnsdal eru Vatnsdalshólar, eitt af þrennu sem talið er óteljandi á Íslandi. Fremst í Vatnsdal fellur Vatnsdalsá niður af heiðum í stórfenglegu gljúfri og mörgum fossum. Merkt gönguleið er meðfram Vatnsdalsárgili frá bænum Forsæludal að fossinum Skínanda.
Gestgjafar: Andrea og Rúnar