Brekkulækur í MiðfirðiBrekkulækur í Miðfirði

Inn af Miðfirði, sem gengur inn úr Húnaflóa á Norðvesturlandi opnast allbreiður, algróinn og grösugur dalur. Þar, í miðjum dal, er notalegt gistihús á bænum Brekkulæk þar sem einnig er rekin ferðaþjónusta allan ársins hring með áherslu á hestaferðir og gönguferðir um Ísland. Fallegt umhverfi, gönguleiðir. Hentar vel til skoðunarferða um dali, annes og fjöll í kringum Húnaflóa. Opið frá 8. apríl til 30. nóvember. 

Veldu dagsetningar
Frá:kr.
hver dvöl
Bóka núna

Þjónusta

 • Sameiginlegt baðherbergi
 • Sér baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Íbúð
 • Hefðbundinn búskapur
 • Vínveitingar
 • Máltíðir ef bókað er fyrirfram
 • Merktar gönguleiðir
 • Voffi velkominn
 • Hreint og öruggt

Í nágrenni

 • Grettisból í Laugarbakka 12 km
 • Hvammstangi 19 km
 • Íslenska selasetrið Hvammstanga 20 km
 • Kolugljúfur 31 km
 • Hvítserkur 50 km

Gistiaðstaða

17 herbergi með sameiginlegu eða sérbaðherbergi í nýrri og eldri hluta hússins á bænum sem var byggður árið 1938. Tvö herbergi eru í séríbúð með eldunaraðstöðu og baði. Sameiginleg setustofa.

Fyrir þá sem ferðast með gæludýr, þá er möguleiki á gistingu í herbergi með sérinngangi.

Þjónusta

Morgunverður er innifalinn. Á sumrin er opinn veitingastaður á bænum þar sem lögð er áhersla á góðan, íslenskan mat úr fersku hráefni, lambakjötsrétti, fiskrétti, mjólkurafurðir og heimablandað múslí. Vínveitingar. Veitingastaðurinn er opinn júní-ágúst kl. 17:00-21:00.  Hægt er að fá kvöldverð í maí og september ef pantað er fyrirfram.

Á Brekkulæk hefur verið rekin ferðaþjónusta í allmörg ár. Þar eru í boði skipulagðar lengri og styttri hesta- og gönguferðir með áherslu á náttúru landsins og mannlíf í íslenskri sveit. Einnig eru í boði árstíðabundnar ferðir, t.d. um jól og áramót. Á bænum er búið með um 80 hross. Fuglaskoðunarferðir í júní. Réttarferðir í september.

Afþreying

Íslenska selasetrið á Hvammstanga. Byggðasafnið á Reykjum í Hrútafirði (22 km). Næsta þéttbýli með sundlaug og verslunum er Hvammstangi (19 km). Einnig er lítil verslun og tveir heitir pottar í þorpinu Laugarbakka (12 km).

Íslensk sveit með sögu og sál

Miðdalur er hlýleg sveit þar sem er tilvalið að bregða sér í gönguferðir úti í náttúrunni, hvort sem er í nágrenni við Brekkulæk eða framar í dalnum sem klofnar þar í þrennt. Eftir dalnum rennur kunn laxveiðiá. Hér í sveitinni, á bænum Bjargi, fæddist og ólst upp einn kunnasti kappi og útilegumaður Íslendingasagna, Grettir sterki Ásmundsson. Frá honum segir í Grettis sögu. Á Bjargi er minnismerki um móður Grettis og á Laugarbakka er Grettisból, minningarreitur til heiðurs kappanum.

Vatnsnes – selaskoðun – náttúruperlur

Frá Brekkulæk eru 14 km að vegamótum (vegur nr. 72) þar sem byrjar hringvegur (90 km) um Vatnsnes. Þar eru ein aðgengilegustu og stærstu selalátur á Íslandi. Í Selasetri Íslands á Hvammstanga má fræðast um seli og selveiðar en hjá bæjunum Illugastöðum, Svalbarði og Ósum hefur verið byggð upp aðstaða til selaskoðunar. Austan megin við Vatnsnes er sérstæður klettastapi í fjörunni, Hvítserkur. Nokkru áður en hringferðinni lýkur blasir við Borgarvirki, 177 m hár gosstapi, einstök náttúrsmíð, auðveld uppgöngu. Þaðan er mikið útsýni yfir héraðið.

Kolugljúfur – Vatnsdalshólar – Vatnsdalsárgil

Austan Miðfjarðar eru Víðidalur og Vatnsdalur, hlýlegir og búsældarlegir dalir þar sem glitrandi laxveiðiár renna á milli grösugra bakka. Í Víðidal eru Kolugljúfur, 1 km löng og um 20-25 m djúp með fallegri fossaröð. Í Vatnsdal er undurfagurt á fallegum sumardegi. Þar í dalsmynni eru Vatns-dalshólar, eitt af því sem talið er óteljandi á Íslandi. Fremst í dalnum, fyrir innan bæinn Forsæludal, fellur Vatnsdalsá í stórfenglegu gljúfri og mörgum fossum niður af hálendisbrúninni. Merkt hefur verið gönguleið meðfram Vatnsdalsárgili frá bænum Forsæludal að fossinum Skínanda, spennandi leið fyrir göngufólk og náttúruunnendur.

Gestgjafi: Arinbjörn

 

í nágrenni