Havarí Lífrænt BýliHavarí Lífrænt Býli

Gistiheimili á bænum Karlsstöðum á norðurströnd Berufjarðar á sunnanverðum Austfjörðum. Gisting með sameiginlegum baðherbergjum. Veitingasalur, opinn á sumrin, þar sem einnig eru í boði öðru hverju á sumrin tónleikar með íslenskum tónlistarmönnum. Margvísleg tækifæri til að njóta útivistar í stórbrotinni náttúru við Berufjörð og til styttri eða lengri gönguferða eða ökuferða í næstu byggðarlög. Áhersla er lífrænan búskap og mat beint frá býli. Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:9.529 kr.
hver nótt á herbergi
Bóka núna

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Hefðbundinn búskapur
  • Wi-Fi
  • Veitingastaður
  • Eldunaraðstaða

Gistiaðstaða

Tvö 15m2 fjölskylduherbergi (2 rúm og koja), eitt 2ja manna herbergi (10m2) og þrjú 15m2 8 manna herbergi/svefnskálar með kojum (90x200 cm) þar sem hægt er að leigja stök rúm eða taka allt herbergið á leigu (sem fjölskylduherbergi eða fyrir hóp). Gestir deila með sér þremur baðherbergjum og þremur sturtum. Rúmgott sameiginlegt rými og eldhús með öllum tilheyrandi búnaði. Tekið er á móti gestum allan ársins hring. 

 
Máltíðir

Veitingastaðurinn, matstofan „Kaffi Havarí“, er opinn 1. apríl til 30. sept. alla daga vikunnar frá kl. 8:00 til 21:00. Þar er borinn fram morgun-, hádegis- og kvöldverður og léttar máltíðir, kaffi (úr lífrænt ræktuðum baunum) og kökur. Í boði er ferskur heima­lagaður matur úr úrvals hráefnum úr heimabyggð og frá bændum á Karlsstöðum. Aðal­áhersla er á grænmetisrétti.

Einföld eldunaraðstaða er í boðið fyrir næturgesti.

 
Þjónusta/afþreying

Á Havarí Hostel er efnt á hverju sumri til ýmissa tónleika með íslenskum tónlistarmönnum sem getið hafa sér gott orð bæði hér heima og erlendis. 

Í grennd við Karlsstaði eru áhugaverðar gönguleiðir, bæði meðfram ströndinni og upp til fjalla. Næstu sundlaugar eru á Breiðdalsvík (útilaug og heitir pottar), Stöðvarfirði (útilaug og heitur pottur) og Djúpavogi (innlaug með heitum pottum úti og inni). Sundlaugin á Djúpavogi er opin allt árið og yfir sumartímann á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði. Næstu verslanir og matsölustaðir á Breiðdalsvík og Djúpavogi. Upplýsingamiðstöð ferðamála er á Breiðdalsvík.

 
Nýsköpun, lífræn ræktun og menningarstarfsemi

Ábúendur á Karlsstöðum starfrækja ekki aðeins gistiheimili, matstofu og tónleikastað, þar sem í boði eru ýmsir viðburðir, heldur stunda þau einnig lífræna grænmetisræktun og fram­leiðslu og markaðssetningu á matvælum eins og grænmetissnakki og flögum úr kartöflum og grænkáli. Á Karlsstöðum býðst listamönnum einnig athvarf til að vinna að verkum sínum og vettvangur til að kynna þau.

 
Freistandi gönguleiðir og áhugaverðar slóðir

Tilvalið er að bregða sér í gönguferðir meðfram ströndinni, sem iðar af fuglalífi, eða þá að halda inn til landsins. Skammt utan við Karlsstaði opnast Krossdalur og um hann liggur gamall fjallvegur um Fagradalsskarð út Fagradal í Breiðdal (12 km á milli bæja - 650 m y.sjó); skemmtileg gönguleið að sumarlagi fyrir þá sem vilja eitthvað á sig leggja til að njóta íslenskrar náttúru. Þá er indælt að aka góðum degi um Breiðdal og t.d. til Stöðvarfjarðar og kynnast mannlífi og náttúrfegurð á þessum stöðum. 

 
„Eggin“, Langabúð, Búlandstindur

Til Djúpavogs, hinum megin við Berufjörð og gegnt Karlsstöðum, eru um 40 km. Djúpivogur er hlýlegur smábær þar sem má t.d skoða „Eggin“ hans Sigurðar Guðmundssonar í Gleðivík, heimsækja Steinasafn Auðuns og Löngubúð, eitt af elstu verslunarhúsum landsins (kaffihús og söfn). Merkt gönguleið er upp á Búlandstind sem setur svip sinn á þessar slóðir. Ganga á tindinn getur reynst þeim nokkur áskorun, sem eru ekki vanir bratt­lendi, en ógleymanlegt á fögrum degi að njóta útsýnisins af tind­inum.

 

í nágrenni