Engimýri í ÖxnadalEngimýri í Öxnadal

Hlýlegt gistiheimili og veitingastaður við þjóðveg 1, „hringveginn“, í Öxnadal, aðeins 34 km akstur frá Akureyri. Sex herbergi með sameiginlegu baði og tvö herbergi með sérbaði. Engimýri stendur í tignarlegu umhverfi þar sem bíða náttúruunnenda og göngufólks spennandi leiðir um töfraheim fjalla og fjalladala. Veiði. Gott skíðasvæði ofan við Akureyri. Góð aðstaða til að njóta norðurljósa á veturna. Opið allt árið.  

Veldu dagsetningar
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Sameiginlegt baðherbergi
 • Sér baðherbergi
 • Frítt netsamband svæðisbundið
 • Heitur pottur
 • Veitingastaður
 • Vínveitingar
 • Máltíðir í boði
 • Sjónvarp
 • Kreditkort
 • Leiksvæði fyrir börn
 • Merktar gönguleiðir
 • Opnir miðar

Gistiaðstaða

8x2 manna herbergi; 6 herbergi með uppbúnum rúmum, handlaug, sjónvarpi, fataskáp, skrifborði og sameiginlegu baðherbergi; 2 herbergi með sérbaðherbergi. Heitur pottur fyrir gesti. Leiksvæði fyrir börn.

 
Matur/veitingar

Á Engimýri er boðið upp á léttar veitingar. Vínveitingar. Veitingasalurinn rúmar allt að 40 manns í sæti.

 
Þjónusta/afþreying

Gestum er heimilt að renna án endurgjalds fyrir silung í Hraunsvatni og Þverbrekkuvatni, stöðuvötnum í fjallshlíðinni gegnt gistiheimilinu. Rjúpnaveiði og gæsaveiði á haustin og snemma vetrar. Spennandi gönguleiðir, ýmist við allra hæfi eða fyrir vant fjallafólk. Næsta sundlaug er á Þelamörk (20 km). Hestaleiga á nokkrum stöðum skammt frá Akureyri. Hvalaskoðunarferðir frá Akureyri, Hauganesi (50 km) og Dalvík (60 km). 18 holu golfvöllur á Akureyri (Jaðarsvöllur). Næsta þéttbýli með verslunum, veitingastöðum, skemmtistöðum, krám, kaffihúsum, sundlaug, söfnum og ýmissi annarri afþreyingu og þjónustu fyrir ferðamenn: Akureyri (34 km).

 
Hamraborgir og fagurblá fjallavötn

Frá Engimýri blasir við eitt kunnasta kennileiti á Íslandi, Hraundrangi, snarbrattur og oddhvass klettadrangur, 1.075 m hár, sem mönnum tókst fyrst að klífa árið 1956. Úr fjallinu, þar sem Hraundrangi gnæfir til himins, hefur orðið mikið framhrun og þar leynist fallegt stöðuvatn í tignarlegu umhverfi, Hraunsvatn (500 m yfir sjó). Tilvalið er að ganga frá gisiheimilinu upp að Hraunsvatni, fylgt er greinilegum slóða og gangan tekur innan við klukkustund. Við vatnið er gott að njóta kyrrðar og nátturufegurðar og í því er talsverð silungsveiði. Á bænum Hrauni, neðst í hlíðinni fyrir neðan Hraundranga, fæddist ástsælasta ljóðskáld Íslendinga, Jónas Hallgrímsson, árið 1807.

 
Fjallgöngur, skoðunarferðir um Eyjafjörð

Öxnadalur, þar sem gistiheimilið Engimýri stendur við þjóðbrautina („hringveginn“, veg 1), liggur um stórbrotið fjalllendi á milli Skaga-fjarðar og Eyjafjarðar. Fyrir fjallafólk eru þetta heillandi slóðir og í grennd við gistiheimilið má benda t.d. á göngu á Þverbrekkuhnjúk (1.200 m) og frábæra útsýnisferð á Drangafjall (1.123 m). Engimýri er einnig tilvalinn staður fyrir þá sem vilja bregða sér í skoðunarferðir um næstu sveitir í Eyjafirði sem þykir með fegurstu héruðum á Íslandi.

 
Akureyri, gamli bærinn, söfn og listagallerí

Akureyri (34 km) er fjölmennasti bær á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins, miðstöð atvinnu-, efnahags- og mennta- og menningarlífs á Norðurlandi. Þarna er að finna söfn, listgagallerí og handverksverslanir, sem áhugavert er að heimsækja. Í elsta hverfi bæjarins, þar sem flest húsin eru frá 19. öld, er Minjasafn Akureyrar og einnig Nonnahús (frá 1849), safn á æskuheimili paters Jóns Sveinssonar eða Nonna (1857-1944), höfundar barnabóka sem nutu fádæma vinsælda víða um heim á fyrstu áratugum 20. aldar. Rétt ofan við bæinn er vinsælasta skíðasvæðið á Íslandi (Hlíðarfjall).

Gestgjafar: Paul og Andrea

 

In the area