Meyjarskemman gistiheimiliMeyjarskemman gistiheimili

Lítið og snyrtilegt gistiheimili, Meyjarskemman, á bænum Litlu-Brekku í Borgarbyggð á Suðvestur-Íslandi, 8 km frá Borgarnesi og 48 km frá Reykjavík. Tvö tveggja manna herbergi með sameiginlegu baðhebergi og eldunaraðstöðu. Litla-Brekka er í hlýlegu umhverfi skammt sunnan við laxveiðiána Langá. Góð staðsetning fyrir skoðunarferðir um Borgarfjörð og vestur á Snæfellsnes. Skemmtilegar gönguleiðir meðfram Langá og við ströndina. Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:106 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Hefðbundinn búskapur
  • Wi-Fi
  • Eldunaraðstaða

Gistiaðstaða

Gistiheimilið er í sérhúsi sem kallað er Meyjarskemman og stendur á hlaðinu við hliðina á íbúðarhúsinu á bænum Litlu-Brekku. Í boði er gisting í látlausum en snyrtilegum 2x2 manna herbergjum með sameiginlegu baðherbergi.

 
Veitingar/máltíðir

Í húsinu er sameiginleg eldunaraðstaða og grillaðstaða utanhúss. Á sumrin geta gestir fengið morgun- og kvöldverð í Ensku húsunum, hlýlegum veitingastað á bökkum Langár í aðeins 5 km akstur frá Litlu-Brekku. Í þorpinu Borgarnesi eru nokkrir ágætir matsölustaðir.

 
Þjónusta/afþreying

Gönguleiðir í nágrenninu, t.d. meðfram laxveiðiánni Langá, inn til landsins eða niður til sjávar. Dagsferðir um Borgarfjarðarhérað og vestur á Snæfellsnes. Áhugaverð söfn í Borgarnesi (8 km). 18 holu golfvöllur, Hamarsvöllur, hjá Borgarnesi. Hestaleiga á Ölvaldsstöðum (17 km). Ýmis ferðaþjónusta í boði í héraðinu, t.d. jöklaferðir og ferðir í 500 m langan manngerðan íshelli í Langjökli (frá Húsafelli) og hellaskoðunarferðir. Næsta þéttbýli með sundlaug, verslunum, veitingastöðum og ýmissi þjónustu við ferðamenn: Borgarnes (8 km).

 
Fossandi ár, auðugt fuglalíf, einstök fegurð við ströndina

Í Langá, einni af kunnustu laxveiðiám á Íslandi sem rennur til sjávar skammt frá Litlu-Brekku, eru nokkrir skoðunar¬verðir fossar. Sjávarfoss er við hlið sveitahótelsins Ensku húsanna og skammt þaðan er Skuggafoss. Ósasvæði árinnar er friðland. Þar er fuglalífið óvenju fjöbreytt og klettótt ströndin og sandfjörurnar, frá Langárósi að Löngufjörum, eiga engan sinn líka á Íslandi. Ógleymanlegt að ganga þar um með nið úthafsöldunnar í eyrum og njóta hrifandi útsýnis til allra átta.

 
Náttúrufegurð og söguslóðir í Borgarfirði

Meyjarskemman á Litlu-Brekku hentar vel sem dvalarstaður fyrir fólk sem ætlar að skoða sig um í Borgarfirði. Margir sögufrægir staðir og náttúruperlur eru í héraðinu. Þar má nefna t.d. vatnsmesta hver í Evrópu, Deildartunguhver (42 km), Hraunfossa (63 km), Húsafell (65 km), sögustaðinn og miðaldasetrið Reykholt (48 km) og gjallgíginn Grábrók (38 km). Í Landsnámsetrinu í Borgarnesi er föst sýning um landnám Íslands á 9. og 10. öld og um skáldið og víkinginn Egil Skallagrímsson sem fæddist, ólst upp og bjó lengst af á þessum slóðum við Borgarfjörð.

 
Hítardalur, Eldborg, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Frá Litlu-Brekku er um 30 km akstur inn í Hítardal, ofan við flatlenda sveitina, Mýrar. Þar er yndislegt að vera í faðmi fjallanna, taka fram gönguskóna og njóta þess að vera í snertingu við náttúruna í kyrrð og friði. Að Eldborg, formfegursta gíg á Íslandi, eru 34 km; ekið er að bænum Snorrastöðum þaðan sem er gönguleið að gígnum. Út með suðurströnd Snæfellsness eru 114 km frá Litlu-Brekku að Arnarstapa og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

 
Gestgjafar: Ragnheiður og Stefán

 

í nágrenni