Hótel BorealisHótel Borealis

Hlýlegt og fjölskylduvænt sveitahótel á fallegum stað með útsýni til fjalla og heiða í sveitinni Grímsnesi á suðvestur-Íslandi, í aðeins 1 klst. akstur frá Reykjavík og 20 mín. akstur frá þjóðgarðinum á Þingvöllum. Gisting í hótelherbergjum, smáhýsum og íbúðarhúsi með 3 svefnherb. Frábær staður til að njóta norðurljósa. Fjölbreyttir möguleikar til afþreyingar og skoðunarferða á Suðurlandi. Veitingastaður. Opið allt árið.

Veldu dagsetningar
Frá:20.160 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

 • Sér baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Íbúð
 • Wi-Fi
 • Heitur pottur
 • Veitingastaður
 • Vínveitingar
 • Norðurljós

Gistiaðstaða

Í boði er þrenns konar gisting:

 • Hefðbundin hótelherbergi í aðalbyggingu, öll með sérbaðherbergi.
 • Gisting í smáhýsum. Í tveimur smáhýsum eru 2x2 manna svefnherbergi, baðherbergi með sturtu og eldunaraðstaða. Þriðja smáhýsið, sem rúmar allt að 6 manns, er eitt stórt fjölskylduherbergi með 2 rúmum og svefnsófa, 2 baðherbergjum og eldunaraðstöðu.
 • Gisting í íbúðar/einbýlishúsi skammt frá aðalbyggingunni. Í húsinu eru 3 svefnherbergi (tvö með tvíbreiðu rúmi, eitt með tvíbreiðu rúmi og svefnsófa f. 2 börn), 2 baðherbergi, fullbúið eldhús og borðstofa/setustofa. Verönd við húsið með fallegu útsýni yfir sveitina. Góður kostur fyrir stóra fjölskyldu eða nokkra ferðafélaga saman. Lágmarksgisting: 3 nætur.

 
Veitingar/máltíðir

Á Hotel Borealis er rúmgóður, hlýlegur og smekklega skreyttur veitingastaður þar sem Matthías Jóhannsson, hótelstjóri og yfirkokkur, ræður ríkjum. Matthías er franskur að þjóðerni en hefur búið og starfað á Íslandi í nokkra áratugi og rekið veitinga- og gististaði. Morgunverður er borinn fram á veitingastaðnum og þar er kvöldverður í boði þar sem lögð er áhersla á rétti með frönsk/íslensku yfirbragði og ferskt hráefni og úr heimabyggð ef þess er nokkur kostur.

 
Þjónusta/afþreying

Gönguleiðir um fallega náttúru, m.a. meðfram ánni Soginu eða á bökkum Úlfljótsvatns; einnig skemmtilegar leiðir upp á fjallið Búrfell (534 m) sem er í grennd við hótelið. Ýmis þjónusta í boði fyrir ferðamenn á Suðurlandi, m.a. hestaferðir, flúðasiglingar, jökaferðir og ökuferðir um hálendið ofan byggðarinnar á sérbúnum jeppum. 9 holu golfvöllur við Ljósafossvirkjun (2 km) sem gestir á Hotel Borealis hafa ókeypis aðgang að. 18 holu golfvöllur á Kiðjabergi í Grímsnesi (23 km). Næstu sundlaugar á Selfossi (19 km) og á Borg í Grímsnesi (23 km). Góður veitingastaður á Hótel Grímsborgum (6,5 km) og matsölustaður og lítil verslun í Þrastarlundi (12 km). Næsta þéttbýli með verslunum og allri almennri þjónustu: Selfoss (19 km).

 
Sveitakyrrð og náttúrufegurð sumar sem vetur

Hotel Borealis er á fallegum slóðum skammt frá bergvatnsánni Sogi sem fellur úr Þingvallavatni. Hér er sveitin græn og hlýleg á sumrin en jafn töfrandi í vetrarskrúða þegar norðurljósin dansa á heiðskírum himni. Skammt frá hótelinu eru tvær af þremur vatnsaflsvirkjunum í Sogi, hin elsta frá 1937. Við Írafossvirkjun (3 km) liggur vegur yfir Sogið og þar opnast falleg ökuleið að sumarlagi meðfram vesturbakka Þingvallavatns allt til þjóðgarðsins á Þingvöllum (37 km). Styttri leið til þjóðgarðsins er eftir aðalveginum í norður frá hótelinu og meðfram austanverðu Þingvallavatni (16 km).

 
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Þingvellir, ein af listasmíðum íslenskrar náttúru og undurfallegur staður, er friðlýstur hegistaður Íslendinga og á Heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hér komu menn saman á hinu íslenska Alþingi frá 930 til 1798 og íslenska lýðveldið var stofnað formlega á Þingvöllum 17. júní 1944. Í gestastofu þjóðgarðsins er margmiðlunarsýning um sögu og náttúru Þingvalla (opin daglega allt árið 09:00-17:00). Þar einnig minjagripaverslun og upplýsingamiðstöð. Stikaðar og merktar gönguleiðir liggja um þjóðgarðinn (gönguleiðakort fást í gestastofu).

 
Heilsulindir, náttúruperlur og sjávarþorp

Laugarvatn Fontana, Spa and Wellness Centre (38 km), er baðstaður og heilsulind þar sem má slaka á í heitum pottum og gufuböðum. Til jarðhitasvæðisins við Geysi, þar sem Strokkur gýs á 10 til 12 mín. fresti, eru 60 km og að Gullfossi, einum fegursta fossi í Evrópu, eru 70 km frá Hótel Borealis. Í um 15 mín. akstur frá hótelinu er Kerið, alldjúpur gígur með tjörn í botni. Í dagsferðum frá Hotel Borealis má aka í austur eftir suðurlandsundirlendi og skoða náttúruperlur eins og Seljalandsfoss (90 km) og Skógafoss (117 km). Við suðurströndina er áhugavert að heimsækja litlu sjávarþorpin Stokkseyri og Eyrarbakka (30 km).
 
Gestgjafar:  Hilmar
 

 

í nágrenni