Hótel SólHótel Sól

Gistiheimili miðsvæðis í Borgarfirði, 14 km frá þéttbýlinu í Borgarnesi, á Vestur-Íslandi, um 70 km frá höfuðborgarsvæðinu. Gisting í herbergjum með sérbaði og misstórum íbúðum á nemendagörðum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Góð staðsetning til skoðunarferða um Borgarfjörð og næstu héruð. Fjölbreyttir möguleikar til útivistar, náttúruskoðunar og afþreyingar. Opið 1. júní til 14. ágúst.

Veldu dagsetningar
Frá:0 kr.
hver nótt á herbergi
Senda fyrirspurn

Þjónusta

  • Sameiginlegt baðherbergi
  • Sér baðherbergi
  • Fjölskylduherbergi 3+
  • Íbúð
  • Frítt netsamband
  • Máltíðir í boði
  • Eldunaraðstaða
  • Kreditkort
  • Leiksvæði fyrir börn

Gistiaðstaða

Herbergi með sér baðherbergi: 20 herbergi, 24 m2 stúdíóíbúðir, með sérbaði og eldunaraðstöðu. Uppbúin rúm og morgunverður innifalin í gistiverði.

Íbúðir: 3 íbúðir með einu svefnherbergi, 4 íbúðir með tveimur svefnherbergjum og 4 íbúðir með þremur svefnherbergjum. 

Veitingar/máltíðir

Auk morgunverðar er kvöldverður í boði á Hótel Sól; matseðill er einfaldur, bleikja, lambaskankar, súpa og pizzur. Næstu matvöruverslanir og veitinga- og matsölustaðir eru í þorpinu Borgarnesi (14 km).

 
Þjónusta/afþreying

Hótel Sól er á Hvanneyri, þéttbýliskjarna sem myndast hefur í kringum Landbúnaðarháskóla Íslands. Fyrir áhugafólk um landbúnað er fróðlegt að skoða Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri (opið daglega júní-ágúst). Einnig gefst kostur á, gegn vægu gjaldi, að líta inn í Hvanneyrarfjósið. Kirkjan á Hvanneyri (frá 1905) er einnig skoðunarverð.

Skemmtilegar gönguleiðir í næsta nágrenni. Áhugaverð söfn í Borgarnesi, Landnámssetrið og Edduveröld. Hestaleiga fyrir fólk á öllum aldri á Ölvaldsstöðum (12 km). Stór og góð sundlaug í Borgarnesi (14 km). Hamarsvöllur, 18 holu golfvöllur, skammt frá Borgarnesi (18 km). Næsta þéttbýli með veslunum, veitingastöðum og allri almennri þjónustu við ferðafólk: Borgarnes (14 km).

 
Náttúruperlur í Borgarfirði

Hótel Sól er ákjósanlegur gististaður fyrir þá sem ætla að skoða sig um í Borgarfirði, héraði sem er rómað fyrir fjölbreytta náttúrufegurð og mikla sögu. Í Norðurárdal er Háskólinn í Bifröst (46 km) í fögru og sérstæðu landslagi þar sem fossinn Glanni er í einni kunnustu laxveiðiá landsins.

Hraunfossar (70 km) eru einstaklega fallegt náttúrufyrirbæri, en skammt þaðan, í Húsafelli (72 km) er vinsæll útivistar- og ferðamannastaður. Á þessum slóðum er margt sem freistar göngufólks og í boði eru ferðir á Langjökul og hellaskoðunarferðir.

 
Snæfellsnes

Leiðin út á Snæfellsnes liggur í norður frá Borgarnesi og síðan út með nesinu sunnanverðu allt í þjóðgarðinn undir Snæfellsjökli (132 km). Á þessari leið eru fjömargar kunnar náttúrugersemar eins og Eldborg á Mýrum, Arnarstapi, Hellnar, Lóndrangar og Dritvík svo að ekki sé minnst á sjálfan Snæfellsjökul. Náttúrufegurð er ekki síðri á norður-strönd Nessins og þar eru t.d. heillandi sjávarþorp eins og Grundarfjörður og Stykkishólmur (112 km frá Hvanneyri).

 
Hvalfjörður, Þingvellir, Geysir, Gullfoss

Sunnan við Borgarfjörð skerst Hvalfjörður inn í landið, alllangur og djúpur. Þar er víða undurfagurt og kjörlendi fyrir göngufólk. Í Hvalfirði var flota- og birgðastöð bandamanna í 2. heimsstyrjöld. Þar má m.a. skoða muni og minjar frá þeim tíma í Hernámssafninu á Hlöðum. Frá Hvanneyri, um Dragháls, Hvalfjörð og Kjós eru um 100 km til þjóðgarðsins á Þingvöllum, einhvers fegursta staðar á Íslandi. Þaðan eru svo um 56 km leið að jarðhitasvæðinu hjá Geysi og ekki lengi verið að bregða sér þaðan yfir að Gullfossi (10 km).

 

í nágrenni