Skyrland er upplifunarsýning um skyr og matarmenningu Íslands. Sýningin, sem er heimili skyrsins, er staðsett í endurbyggðu Mjólkurbú Flóamanna í nýjum miðbæ Selfoss. Á sýningunni reynir á öll skilningarvit gesta – sjón, heyrn, snertingu, ilm og bragð – með frumlegri hönnun fjölbreyttra atriða sem meðal annars fjalla um Auðhumlu, íslenska sumarið, mjólkurvinnslu kvenna, kynslóð eftir kynslóð, í torfbæjum liðinna alda, mjólkurbúin og margt fleira. Skyrið, þessi afurð íslenskrar menningar og náttúru, hefur nú slegið í gegn víða um heim og í Skyrlandi er saga þess rakin.