Gönguskíðaævintýri norðan Vatnajökuls | ÓbyggðasetriðGönguskíðaævintýri norðan Vatnajökuls | Óbyggðasetrið

Krefjandi fimm daga gönguskíðaferð um stórbrotið svæði norðan Vatnajökuls. Ferðin hefst í Möðrudal, hæsta byggða bóli landsins, og þaðan er haldið að Sænautaseli þar sem útsýni er yfir bæði Herðubreið og Geitasand. Frá Sænautaseli liggur leiðin um söguslóðir Sjálfstæðs fólks inn að bænum Brú á Jökuldal og þaðan áfram að Vaðbrekku. Skíðað er inn með Jökulsá í Dal, milli Nónhnjúks og Múla og inn Laugarvalladal. Frá Laugarvalladal er haldið að hinum hrikalegu Hafrahvammagljúfrum og þaðan skíðað til móts við Snæfell að Laugarfelli. Síðasta dagleiðin liggur frá Laugarfelli í átt að Óbyggðasetrinu þar sem skíðað er að Kirkjufossi og Faxa. 
Lágmarksaldur þátttakenda er 16 ára. Lágmarksþátttaka til að ferð verði farin er 6 manns.

Vinsamlegast hafið samband ef áhugi er á ferð á öðrum dagsetningum en þeim sem eru í boði í vefsölu.

Veldu dagsetningu
Frá:kr.
á mann / hver dvöl
Bóka

Þjónusta

 • Sameiginlegt baðherbergi
 • Sér baðherbergi
 • Fjölskylduherbergi 3+
 • Hefðbundinn búskapur
 • Wi-Fi
 • Veitingastaður
 • Merktar gönguleiðir

Innifalið 

 • Gisting í 5 nætur
 • Matur í 5 daga
 • Akstur til og frá Egilsstaðaflugvelli
 • Heitar laugar
 • Spa
 • Leiðsögn

Hafið meðferðis

Vinsamlegast athugið að mikilvægt er að vera á utanbrautarskíðum/ferðagönguskíðum í þessari ferð. Einnig er mikilvægt að vera vel búinn.  

 • Hlý föt
 • Ullarföt sem innsta lag
 • Góða vettlinga
 • Húfu
 • Buff
 • Sólgleraugu/skíðagleraugu
 • Góða ullarsokka
 • Vind- og vatnsheldar utanyfirbuxur
 • Skeljakka
 • Svefnpoka
 • Lítinn dagpoka fyrir nesti dagsins
 • Lítinn hitabrúsa
 • Vatnsbrúsa

Ferðalýsing

1. Möðrudalur – Sænautasel 23 km

Eftir morgunflug til Egilsstaða er ekið í 1,5 tíma inn til heiða að hæsta byggða bóli á Íslandi, Möðrudal. (Norðanfólk getur ekið beint í Möðrudal og fengið svo skutl til baka þangað í lok ferðar.) Skammt innan við Möðrudal spenna menn á sig skíðin og liggur dagleiðin um Möðrudalsfjallgarðana, með útsýni yfir Herðubreið, drottningu íslenskra fjalla, og yfir Geitasand. Gangan endar við hið sögufræga heiðarbýli Sænautasel, þar sem göngugarpar fá tækifæri til að upplifa að gista á baðstofulofti og heyra sögur af svæðinu.

2. Sænautasel – Brú 18 km

Nú liggur leiðin inn faðmvíðar heiðar um söguslóðir Sjálfstæðs fólks. Stefnan er tekin í suðurátt, inn með Ánavatni og um heiðarlönd. Á þessu svæði eru meiri líkur að rekast á hreindýr en mannskepnur. Dagleiðin endar við bæinn Brú á Jökuldal og gist er á Vaðbrekku.

3. Brú – Laugarvalladalur 18 km

Nú er skíðað inn með Jökulsá í Dal. Farið er milli Nónhnjúks og Múla um Mógilsaura og inn Laugarvalladal. Náttstaður er í gangnamannakofa þar sem heitur lækur rennur fram af kletti og hægt er að baða sig í einstakri laug, undir heitri náttúrusturtu. Einstök upplifun, ekki síst á veturnar þegar heitt vatnið bunar undan grýlukertunum.

Opna allt

4. Laugarvalladalur – Laugarfell

Frá Laugarvöllum er haldið að hinum hrikalegu Hafrahvammagljúfrum, skíðað meðfram þeim og yfir Jökulsá á stíflunni og skíðað áfram mót Snæfelli í átt að Laugarfelli. Úsýni þennan dag er inn á Vatnajökul, Kverkfjöll og vestur á Herðubreið. Hægt er að stytta þessa dagleið eftir smekk þar sem leiðin frá Laugarvalladal í Laugarfell er nokkuð löng. Fjallahótelið Laugarfell er lúxus aðstaða með heitri náttúrulaug og hlýju húsi þar sem vel fer um gesti í tveggja manna herbergjum.

5. Laugarfell – Óbyggðasetur 14 km.

Eftir gott atlæti í Laugarfelli er haldið inn að Kirkjufossi, einum af fjölmörgum fossum í Jökulsá í Fljótsdal. Þaðan er stefnt út Jökulsá að fossinum Faxa og áfram út Fljótsdalsheiði, að Axará. Gestum verður skutlað að Óbyggðasetrinu þar sem slegið er upp veislu og kvöldvöku. Auk þess geta gestir nýtt sér baðhús með heitri laug, gufubaði og slökunarherbergi eða skoðað sýninguna um óbyggðir Íslands.

6. Brottfaradagur

Að loknum morgunverði í Óbyggðasetrinu er gestum skutlað út á flugvöllinn á Egilsstöðum.

 

í nágrenni